Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Vörslusvipting nautgripa á grundvelli 37. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra

Stjórnsýslukæra

Með erindi, dags. 1. nóvember 2021, kærði [X] lögmaður f.h. [Y] og [A], ákvörðun Matvælastofnunar frá 9. september 2021 um að svipta kærendur vörslur á nautgripum sínum á [B].

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kærenda innan kærufrests.

 

Krafa

Þess er krafist að ákvörðun Matvælastofnunar um að taka nautgripi kærenda í sínar vörslur, verði felld úr gildi. Jafnframt er krafist að kæra fresti réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Málsatvik

Málsatvikum er lýst á þann hátt að frá árinu 2014 hafi Matvælastofnun farið í 40-50 eftirlitsheimsóknir á umræddan bóndabæ. Matvælastofnun hafi haft viðvarandi afskipti af búskap á bænum vegna slæms aðbúnaðar, umhirðu, vanrækslu og meðferðar á nautgripum. Stofnunin hafi á þeim tíma ítrekað beitt þvingunaraðgerðum til að knýja fram úrbætur. Málsatvik verða þó einungis rakin frá 21. janúar 2021 en þann dag barst kærendum bréf frá Matvælastofnun ásamt afriti af skoðunarskýrslum sem byggðu á eftirliti sem farið var á bæinn þann 12. janúar. Í eftirlitsskýrslu nr. #22965A vegna matvæla og fóðurs voru skráð 19 almenn frávik, en þau vörðuðu m.a. eftirfarandi atriði: Meindýr/smitvarnir, verklag þrifa, verklag við umbúðir og beit, aðskilnaður í geymslu og meðferð fóðurs, , umhverfi útihúsa, meindýravarnir, þrif á byggingu og búnaði, sjúkdóma- og lyfjaskráning, hjarðbók, ástand girðinga, ástand umhverfis við mannvirki, umhirða og uppröðun lausra hluta og gæðahandbók. Í eftirlitsskýrslu nr. #22965B vegna dýravelferðar voru skráð 12 almenn frávik og 6 alvarleg frávik, alvarlegu frávikin voru eftirfarandi: Eigið eftirlit, úrbætur ekki gerðar frá síðasta eftirliti, brynningartæki – aðgangur að vatni, slysavarnir. Almennu frávikin voru eftirfarandi: Smitgát á býlinu, þekking, hönnun á rými, sérstakar stíur, innréttingar, fóðrun og brynning, hreinleiki dýra/legusvæða, holdafar, húð og ull.

Með umræddu bréfi, dags 21. janúar 2021 fór Matvælastofnun fram á úrbætur vegna aðstæðna dýra á bænum, þ.e. vegna sauðfjár, hrossa og nautgripa. Hvað varðar nautgripi fór Matvælastofnun fram á úrbætur í átta liðum sem voru eftirfarandi: 1) Fjarlægt yrði tað og taðhaugar af hlaði, 2) Hreinsa allt tað og moð úr hlöðu og gripaskemmu og setja nýjan undirburð 3) Fjarlægja allt úr gripaskemmu sem ekki tilheyrði nauðsynlegri fóðrun og umhirðu nautanna, 4) Lyfjaskráning ætti að færast í Huppu og vera uppfærð á hverjum tíma, 5) Engir gripir ætti að vera á eða komast í fóðurgang í fjósi. 6) Smákálfum í stórgripastíu í fjósi skyldi fundinn annar staður þar sem fólefni henti þeim, trekklaus, með nægilegan fjölda af túttufötum, hitastig í rými væri í samræmi við kröfur reglugerðar og með þurrt og mjúkt undirlag. 7) Kassi yfir holu í hlöðugólfi þar sem áður hafi verið súgþurrkun skyldi fjarlægja og loka holunni varanlega með tryggilegum hætti. 8) Gerð krafa um varanlegan brynningarbúnað sem gæfi stöðugan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 1065/2014 um velferð nautgripa. Fóðrun- og brynningarbúnaður skyldi þannig útbúinn, uppsettur og við haldið að hætta á mengun væri í lágmarki. Jafnframt voru dagsektir boðaðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga um velferð dýra nr. 55/2013. Matvælastofnun benti á að þar sem kærendur hefðu ekki sinnt fyrri úrbótakröfum stofnunarinnar hygðist stofnunin leggja á dagsektir að upphæð 25.000 kr. til að knýja á um úrbætur. Þann 31. mars bárust andmæli frá kærenda vegna fyrirhugaðra dagsekta og mótmæltu þar kærendur fyrirhuguðum dagsektum Matvælastofnunar og bentu m.a. á það að aðaldráttavélin á bænum væri búin að vera biluð í tvo mánuði og að um væri að ræða óraunhæfar kröfur af hálfu Matvælastofnunar á hendur kærenda. Matvælastofnun féllst ekki á andmæli kærenda og lagði stofnunin dagsektir að upphæð 25.000 kr. á dag, með bréfi dags. 10. febrúar, til þess að knýja á um þær úrbætur sem stofnunin hafði gert kröfu um.

Í bréfi frá Matvælastofnun til kærenda þann 25. mars 2021 kemur fram að í skoðunarskýrslum vegna eftirlits Matvælastofnunar á bæinn þann 22. mars höfðu verið skráð 12 almenn frávik og 2 alvarleg í skýrslu matvæla og fóðurs nr. #24393A en 7 almenn frávik og 2 alvarleg í skýrslu dýravelferðar nr. #24393B. Í bréfi stofnunarinnar kemur fram að orðið hafi verið við úrbótakröfum að hluta, sérstaklega hvað varðar vatn og fjárhús. Smákálfar hafi reynst nokkuð rýrir en aðrir gripir í ágætu standi hvað varðaði fóðrun og hreinleika. Eitthvað hafi minnkað af drasli sem valdi slysahættu utandyra en þó hafi drasl sem hafi verið inni í nautaskemmu verið flutt út og sett í fjörukambinn. Það hafi þó enn verið skráð alvarleg frávik vegna slysahættu í umhverfi. Stofnunin mat það svo að óhjákvæmilegt væri að halda dagsektum til streitu en þó var ákveðið að lækka þær úr 25.000 kr. niður í 15.000 kr. á grundvelli þeirra úrbóta sem farið höfðu fram og með tilliti til meðalhófs og jafnræðis. Með bréfi, dags. 8. apríl, andmæltu kærendur þeim sjónarmiðum Matvælastofnunar sem fram komu í bréfi stofnunarinnar frá 25. mars. Benda þar kærendur á að gerðar hafi verið miklar úrbætur með tilliti til þeirra krafna sem gerðar voru í eftirlitsskýrslunni og kröfðust kærendur þess að dagsektir yrðu felldar niður. Kærendur töldu jafnframt að kröfur Matvælastofnunar hefðu verið óhóflegar, og að þeim hafi verið gefinn of stuttur tími til að framkvæma allar þær úrbætur sem Matvælastofnun gerði kröfu um. Með bréfi, dags. 15. apríl 2021, veitti Matvælastofnun svör við þeim andmælum og benti stofnunin á að ákveðnar úrbætur hafi verið gerðar og með vísan til þess hafi stofnunin lækkað dagsektir úr 25.000 kr. niður í 15.000 kr. en að úrbætur væru ekki nægar til að stofnunin gæti fellt niður dagsektirnar að fullu.

Þann 7. maí 2021 fór Matvælastofnun í eftirlit á bæ kærenda og voru skráð tvö alvarleg frávik og 12 frávik í eftirlitsskýrslu nr. #25169A matvæli og fóður og tvö alvarleg frávik og 7 frávik í eftirlitsskýrslu dýravelferðar nr. #25169B. Í skýrslunum kemur fram að við komu á búið hafi komið í ljós að engar úrbætur höfðu átt sér stað frá síðasta eftirliti. Í raun hefði umhverfi og ásýnd á bænum versnað, mikið af drulluhaugum og plastrusli um allt. Naut höfðu brotist út úr gerðinu þar sem þeim sé ætlað að vera og skapað óróa í kúahópnum og ekki látið kýrnar í friði. Einnig er bent á að skammt sé síðan graðneyti á bænum höfðu rekið kú út í sjó þar sem hún hafði síðan örmagnast og drepist. Einnig hafi það verið ámælisvert að ungar kvígur höfðu verið í kúahópnum og þá skapast hætta á meinfangi, en slíkt ástand hafi oft komið upp á bænum. Matvælastofnun vísaði til þess að ástandið á bænum væri alvarlegt og langvarandi með tilliti til dýravelferðar og matvælaöryggis. Í eftrlitsskýrslu matvæla og fóðurs kemur fram að við skoðun Matvælastofnunar þann 12. janúar 2021 hafi verið gerð athugasemd við maskkör framan við húsið sem væru með mismiklu maski í og töluvert mask á jörðinni þar sem sum körin höfðu oltið. Nautgripir væru að éta úr þeim en einnig hross. Mask eigi bara að gefa í því magni sem gripirnir þurfa í hvert sinn og þrífa þurfi körin á milli. Masskörin lægju óvarin innan og utandyra en leiddi það til hættu á smiti frá fuglum og meindýrum í fóðrið. Sú staða væri óbreytt frá eftirliti þann 20. mars 2020 og aftur 7. maí 2021. Einnig hafi verið gerð athugasemd við umgengni og þrif utandyra og niðurfall væri stíflað. Sú staða hafi verið óbreytt við skoðun Matvælastofnunar þann 12. mars 2021 og enn 7. maí 2021. Jafnframt kemur fram að mikið af lausu plasti og netum væri á svæðinu og það ástand óbreytt frá skoðun 20. mars 2020. Í skýrslunni kemur fram að fyrst hafi verið gerð athugasemd við uppsafnað tað og moð í hlöðu og skemmu þann 20. mars 2020. Í eftirliti frá 22. mars 2021 kemur fram að búið hafi verið að moka í hlöðu og nautaskemmu. Þurr undirburður undir gripum á báðum stöðum og að mykjan væri farin að safnast saman í ganginn framan við hlöðunni en fóðurgangar hreinir. Kominn væri þykkur haugur af undirburði og taði í kálfastíu svo stærstu kálfar ættu í erfiðleikum með að komast á milli stía. Ef haldi áfram sem horfið myndu kálfarnir enda á að fara upp úr stíunni. Hreinsa þyrfti burt allan undirburð úr stíunni og setja hæfilegt lag til þess að tryggja að kálfarnir myndu ekki festa fætur í rifum sem séu of breiðir fyrir þá. Einnig væri byrjað að safnast saman skítur í minni kálfastíum. Þetta ástand hafi verið óbreytt við eftirlit þann 7. maí 2021. Ekki væru neinar sjúkdóma- eða lyfjaskráningar fyrir hendi hvorki á blaði né tölvu, þetta ástand var óbreytt frá 20. mars 2020. Hjarðarbók var jafnframt ekki uppfærð. Allt fóður hafi verið geymt óvarið utandyra og rúllur margar götóttar eftir hross. Í skýrslu dýravelferðar var gert frávik á smitgát í býlinu þar sem fóðurdallarnir voru óhreinir sem smithætta gæti stafað af. Gert var frávik við þekkingu og hæfni en vísað er til þess að ungar kvígur og ógeld naut gengu saman en það beri að halda ókynþroska kvígum frá graðnautum. Einnig sem að það vantaði betri hópaskiptingu á kálfum, en smákálfar og upp undir sex mánaða gamlir kálfar höfðu verið saman. Fram kemur að Matvælastofnun hafi bent á þessi atriði oft áður, allt til frá eftirliti þann 20. apríl 2020 til eftirlits 7. maí 2021. Gert var frávik við búnað og vísað til þess að skortur væri á ásættanlegum nautheldum vegg í nautaskemmu milli nauta og geymslurýmis framan við, hlaðið væri af maskkörum og hálfliggjandi grindum. Í geymslurými væri slysahætta en þó hafi mikið drasl verið fjarlægt frá seinasta eftirliti. Gert var frávik við fóðrun og brynningu en ekki voru nægar túttur handa kálfum, einungis 15 túttur í þrem túttufötum en kálfar 21. Hey fyrir smákálfa hafi verið lélegt og margir kálfar holdrýrir, einnig sem það þyrfti að gefa ormalyf. Frávik var gert við eigið eftirlit, slysahætta væri í umhverfi og enn bæri búskapur vott af sinnuleysi þó búið væri að lagfæra einhver atriði frá síðasta eftirliti. Gert var frávik við rými og þéttleika í stíum/legurými og holdafar en vísað er til þess að rýmið fyrir smákálfa væri of þröngt og að í rýminu mættu vera 18 kálfar undir sex mánaða en til staðar voru 21. Einnig sem að einn kálfur væri í holdastigi 2,5 og fimm kálfar í holdastigi 2. Bæta þurfti því fóðrun kálfanna með betra heyi og jafnvel kjarnafóðri. Alvarlegt frávik var gert við að ekki höfðu verið gerðar úrbætur við átta tilvik hvað varðar nautgripi frá síðasta eftirliti.

Með bréfi þann 2. júní 2021 boðaði Matvælastofnun fyrirhugaða vörslusviptingu á bóndabæ kærenda vegna ítrekaðra brota á gildandi lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Matvælastofnun vísar til þess að vandamál á umræddum bóndabæ sé fyrst og fremst langvarandi skortur á eigin eftirliti, þ.e. skortur á frumkvæði varðandi úrbætur og mikil slysahætta fyrir gripi. Kærendum var veittur andmælafrestur til 14. júní 2021. Þann 14. júní barst Matvælastofnun tölvubréf frá lögmanni kærenda sem óskaði eftir framlengdum andmælafresti til 15. júlí og aftur til 15. ágúst. Erindi kærenda barst Matvælastofnun þann 15. ágúst 2021 þar sem gerðar voru athugasemdir við framkomu héraðsdýralæknis við eftirlit á bænum. Kærendur kröfðust þess að eftirlit færi aftur fram og tekið væri til greina það sem lagfært hefði verið og gefinn rúmur frestur til frekari lagfæringa. Viðbótar athugasemdir bárust þann 17. ágúst. Með bréfi þann 9. september tilkynnti Matvælastofnun ákvörðun stofnunarinnar um vörslusviptingu kærenda á öllum þeim nautgripum sem þeir halda á bóndabæ sínum. Með tölvubréfum dagana 17. september, 26. september og 27. september andmæltu kærendur vörslusviptingunni og kröfðust þess að framkvæmt yrði annað eftirlit. Með bréfi, dags. 12. október 2021, tilkynnti Matvælastofnun að áður en vörslusvipting yrði framkvæmd myndi stofnunin fara í óboðað eftirlit á bóndabæ kærenda til að kanna hvort ástandið hefði lagast frá síðasta eftirliti. Kæmi svo í ljós hygðist Matvælastofnun hætta við vörslusviptinguna. Daginn eftir þann 13. október 2021 óskuðu kærendur eftir því að beðið yrði með væntanlega úttekt í einn mánuð svo að tími gæfist til þess að lagfæra það sem mögulegt væri á þeim tíma. Matvælastofnun hafnaði þeirri beiðni kærenda með tölvubréfi þann 14. október 2021.

Þann 19. október 2021 fór Matvælastofnun í óboðað eftirlit á bæ kærenda og var annar kærenda viðstaddur skoðunina. Í skoðunarskýrslum kemur fram að ástandið á býli kærenda hafi verið óbreytt og að fyrri ákvörðun Matvælastofnunar um fyrirhugaða vörslusviptingu stæði enn. Í skýrslu nr. #27381A um matvæli og fóður voru gerð sjö alvarleg frávik sem vörðuðu verklag þrifa, verklag við aukaafurður úr dýrum, verklag við umbúðir og beit, umhverfi útihúsa, þrif á byggingum og búnaði, merking gripa og hjarðbók. Í skýrslu nr. #27381B voru gerð fimm alvarleg frávik sem vörðuðu þekkingu, fóðrun og brynningu, hreinleika dýra/legusvæði, holdafar og að úrbætur hafi ekki gerðar frá síðasta eftirliti. Kærendum var veittur andmælafrestur til 28. október. Í andmælum kærenda er því mótmælt sem fram kom í skoðunarskýrslum Matvælastofnunar en vísað er til þess að búið væri að gera ýmsar úrbætur sem kærendur telja að ekki hafi verið litið til í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar. Með bréfi þann 1. nóvember 2021 bárust kærendum svör Matvælastofnunar við andmælum kærenda frá 28. október. Jafnframt staðfesti Matvælastofnun að ákvörðun stofnunarinnar frá 9. september 2021 um vörslusviptingu stæði óbreytt.

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2021, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Jafnframt óskuðu kærendur eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun þar til úrskurðir í málinu lægi fyrir. Hinn 5. nóvember 2021 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar annars vegar vegna málsins og hins vegar vegna ósk kærenda á frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið. Umsögn Matvælastofnunar vegna frestun réttaráhrifa barst ráðuneytinu þann 11. nóvember 2021 þar sem stofnunin mótmæltir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað þar sem um væri að ræða langvarandi óviðunandi ástand í búskap á umræddum bæ. Með bréfi þann 19. nóvember 2021 féllst ráðuneytið á þá kröfu kærenda að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar en einungis í einn mánuð, þ.e. til 18. desember 2021. Samhliða þeirri ákvörðun var því beint til kærenda að laga aðbúnað og þar með bæta heilsufar nautgripanna sem um ræðir. Umsögn Matvælastofnunar vegna málsins barst ráðuneytinu þann 23. nóvember 2021. Í kjölfarið var kærendum gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna umsagnarinnar og var veittur frestur til og með 8. desember 2021. Kærendur óskuðu eftir framlengdum fresti fram yfir áramót en féllst ráðuneytið á að veita framlengdan frest til og með 20. desember 2021. Andmæli kærenda bárust þann 20. desember 2021.

 

Sjónarmið kærenda

Kærendur byggja á því að ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu nautgripana sé mjög íþyngjandi aðgerð. Kærendur vísa til þess að í andmælum frá 28. október til Matvælastofnunar hafi verið vísað til þess að vilji væri að bæta úr aðstæðum á bænum en að báðar dráttavélar sem væru til umráða á bænum hefðu bilað. Ekki hafi verið hægt að gera við vélarnar í einn og hálfan mánuð þar sem varahlutir í þær fengust ekki á landinu. Kærendur vísa til þess að óskað hafi verið eftir fresti til úrbóta áður en vörslusvipting færi fram. Ekki hafi fengist nauðsynlegir varahlutir í landinu og því hafi þurft að panta varahluti til viðgerða á vélunum erlendis en hafi þeir séu nú komnir til landsins og búið sé að gera við dráttavélarnar. Kærendur voru þá að vinna í því að moka út úr skemmu og hlöðu og hreinsa og áætlað að þeir yrðu búnir að því eftir hálfan mánuð. Matvælastofnun hafnaði þeirri beiðni og tók andmæli kærenda ekki til greina með bréfi 1. nóvember. Kærendur byggja því á því að eðlilegt væri að veita stuttan frest til úrbóta eftir svo langvarandi bilun í lykil tækjabúnaði til að hreinsa skít og annan úrgang og óhreinindi í burtu frá bænum.

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

Matvælastofnun byggir á því að kjarni málsins sé sá að samkvæmt 10. gr. laga nr. 55/2013, um dýravelferð skuli hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni búa yfir nægjanlegri getu til annast dýrin í samræmi við lögin. Kærendur virðast hvorki búa yfir nægjanlegri getu eða vilja til að annast nautgripi sína á fullnægjandi hátt að mati opinbers eftirlitsaðila. Matvælastofnun hafi beitt vægari þvingunaraðgerðum en þær hafi ekki dugað til. Því hafi verið boðaðar og ákveðnar mjög íþyngjandi þvingunaraðgerðir, þ.e. vörslusvipting. Stofnunin hafi því miður talið þær óhjákvæmilegar eins og málum sé komið og minnir á hversu aðdragandinn sé langur og hversu mörg tækifæri kærendur hafa fengið til að bæta úr sem þeir hafi ekki nýtt sér.

Matvælastofnun byggir á því að það sjónarmið kærenda að þeir hafi ekki haft tiltækan vélbúnað til að sinna gripum sínum svo vikum skiptir vera vanbúnað og getuleysi sem ekki sé hægt að afsaka. Stofnunin vísar til þess að samkvæmt upplýsingum frá þeim eftirlitsdýralæknum stofnunarinnar sem komið hafa að eftirliti á bæ kærenda undanfarin ár hafi kærendur notað þessa afsökun a.m.k. tvisvar áður þegar ekki hafi náðst að ljúka úrbótum innan frests. Matvælastofnun vísar til 5. gr. reglugerðar nr. 1065/2014 um velferð nautgripa þar sem kveðið sé á um almenna meðferð og eigið eftirlit en í 2. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að umráðamenn nautgripa skuli gæta að heilsufari, hreinlæti, fóðrun, fóðri, vatni og öðrum umhverfisþáttum og tækjabúnaði sem geti haft áhrif á líðan gripanna. Í 14. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra sé fjallað um meðferð á dýrum og í g. lið ákvæðisins sé kveðið á um að umráðamönnum dýra beri að tryggja dýrunum góða umönnun þar með talið að tryggja að útbúnaður sé til staðar svo unnt sé að annast um þau og meðhöndla á viðunandi hátt. Matvælastofnun vísar til þess að kærendur hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum.

Matvælastofnun vísar jafnframt til þess að þann 25. janúar 2017 hafi farið fram vörslusvipting á nautgripum á bæ kærenda. Matvælastofnun hafi þann 23. janúar 2017 farið á bæ kærenda og afhent þeim bréf þar sem kynnt hafi verið endanleg ákvörðun stofnunarinnar um vörslusviptingu allra nautgripa á bænum. Hygðist stofnunin láta slátra gripum þar sem ítrekuðum tilmælum um úrbætur hefði ekki verið sinnt. Við aðgerðir þann 25. janúar 2017 höfðu kærendur lagt fram tölvupóst frá lögmanni sínum þar sem fram kom að kærendur hefðu gert samkomulag við [E] um að taka að sér bústjórn að bænum. Í ljósi þess ásamt því að unnið hafði verið að umbótum á aðbúnaði frá 23. janúar 2017, hafi héraðsdýralæknir ákveðið að flytja einungis hluta gripanna til slátrunar. Alls höfðu 46 gripir verið fluttir til slátrunar, en til slátrunar höfðu verið valdir gripir sem ekki höfðu nógu góðan aðbúnað og/eða vanfóðraðir, bæklaðir eða meiddir. Matvælastofnun vísar til þess að [E] hafi aðeins verið bústjóri á bæ kærenda í 2-3 mánuði.

 

Athugasemdir kæranda við umsögn Matvælastofnunar

Kærendur andmæla því að ekkert hafi breyst til batnaðar á bænum. Kærendur hafi hug á að búa dýrunum fullnægjandi aðbúnað og hafi lagt sig fram við að gera úrbætur. Kærendur byggja á því að hafa orðið fyrir því óhappi að báðar dráttavélar á bænum hefðu bilað í vor og hafi bilunin orðið langvarandi þar sem ekki voru til varahlutir í landinu og því hafi safnast upp úrgangur sem ekki hafi tekist að þrífa. Kærendur vísa til þess að búið sé að hreinsa fyrir framan fjós og bera möl ofaní og hjá fjárhúsum, hreinsað hafi verið í fjöru og skemmu og úr hlöðu og hjá kálfum í fjósi. Einnig hafi verið settur undirburður. Auk þess hafi verið leitast við að bæta annað sem hefur verið sett út á. Plast hefur verið tekið nema það náist ekki vegna frosts. Jafnframt sé aðgengi nautgripa að vatni nægilegt og kannist kærendur ekki við vanfóðrun dýra. Mask sé nú ekki skilið eftir í körum þannig að það sé aðgengilegt fyrir fugla eða meindýr og einnig séu meindýravarnir á bænum. Ungar kýr séu aðgreindar frá nautum og leitast við að hafa það í lagi og búa dýrunum viðunandi aðbúnað.

Kærendur byggja á því að stjórnvöld sem hafa eftirlitsskyldu hafi einnig leiðbeiningaskyldu og upplýsingaskyldu og sé hún ríkari þegar um svo íþyngjandi aðgerð sé að ræða sem vörslusvipting á svo stóru nautgripabúi sem er á bæ kærenda en þar séu um 150 nautgripir. Fjártjón af vörslusviptingunni sé því gífurlegt fyrir bændurna og ekki eðlilegt að grípa til svo íþyngjandi aðgerða sem svipti kærendum atvinnu nema þrautreynt teljist að aðstæður geti lagast. Kærendur krefjast þess að réttaráhrifum verði frestað á hinni kærðu ákvörðun þar til úrskurður ráðuneytisins liggi fyrir. Þar sem kærendur hafi nú bætt aðstæður á bænum og fullur vilji sé fyrir hendi til að búa dýrum á bænum viðunandi aðstæður, sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til þess að ef ekki verði fallist á að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi sé krafist að úttekt verði gerð á bænum áður en vörslusviptingar verði gripið og tilkynnt um hana með fyrirvara þannig að lögmaður ábúenda geti verði viðstaddur þá úttekt. Jafnframt er þess krafist að þá verði litið til úrbóta og upplýst um það sem að sé og frestur verði veittur á vörslusviptingu til að gera umkrafðar úrbætur og skýr fyrirmæli veitt um hverra úrbóta sé krafist og hvernig.

 

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 9. september 2021, um vörslusviptingu á nautgripum kærenda á grundvelli 37. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra.

Ákvörðun Matvælastofnunar byggir á lögum um velferð dýra nr. 55/2013 og reglugerð um velferð nautgripa nr. 1065/2014. Í 1. gr. laganna er kveðið á um að markmið laganna sé að stuðla að velferð dýra. þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, meiðsli og sjúkdóma. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé að fara vel með dýr og að umráðamaður beri ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lögin. Ill meðferð dýra er óheimil. Í 1. gr. reglugerðar nr. 1065/2014, um velferð nautgripa er kveðið á um að tilgangur reglugerðarinnar sé að tryggja velferð og heilbrigði allra nautgripa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði.

Matvælastofnun byggir á því að kærendum hafi verið veittir ítrekaðir frestir til úrbóta og þrátt fyrir vægari aðgerðir og aðra vörslusviptingu hafi kærendur ekki orðið við kröfum Matvælastofnunar um úrbætur. Einnig sem að vandamál á umræddum bóndabæ sé fyrst og fremst langvarandi skortur á eigin eftirliti, þ.e. skort á frumkvæði í úrbótum og mikil slysahætta fyrir gripi. Matvælastofnun vísar jafnframt til þess að það sjónarmið kærenda að ekki hafi tekist að verða við úrbótum á bæ sínum leiði af þeirri ástæðu að dráttavélarnar hafi verið bilaðar í um tvo mánuði, sé ekki tæk.

Kærendur byggja á því að ákveðnar úrbætur hafi orðið á bæ þeirra en að ekki hafi tekist að verða að öllum kröfum Matvælastofnunar fyrr vegna bilunar á dráttarvélum þeirra. Jafnframt hvíli upplýsinga og leiðbeiningaskylda á Matvælastofnun ekki sé eðlilegt að grípa til svo íþyngjandi aðgerða nema þrautreynt teljist að aðstæður geti lagast.

Ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu nautgripa kærenda er tekin á grundvelli 37. gr. laga um velferð dýra þar sem kveðið er á um að Matvælastofnun sé heimilt að taka ákvörðun um að svipta umráðamann dýra vörslu þeirra, ef aðilar sinna ekki fyrirmælum innan tilgreinds frests, og sér Matvælastofnun um framkvæmd vörslusviptingar en er jafnframt heimilt að leita aðstoðar lögreglu.

Ljóst er að ástand á bæ kærenda brjóti ítrekað gegn lögum um velferð dýra sem og reglugerð um velferð nautgripa og að mati ráðuneytisins hefur aðbúnaður nautgripa á bænum lengi verið verulega ábótavant og um er að ræða langvarandi skort á eigin eftirliti kærenda. Vísast þar til að mynda til 6. gr. laganna þar sem kveðið er á um almenna meðferð dýra en skylt er að fara vel með dýr og ber umráðamaður ábyrgð á að annast sé um þau í samræmi við lög. Ráðuneytið telur einnig ljóst að um sé að ræða brot á 29. gr. laga um velferð dýra sem kveður á um aðbúnað dýra en vísast til þess sem að framan er rakið um ítrekaðar athugasemdir Matvælastofnunar hvað þetta varðar.

Einnig telur ráðuneytið að um brot á 30. gr. laganna sé að ræða en ákvæðið kveður á um byggingar og búnað. Samkvæmt því skal húsnæði, innréttingar, girðingar og annar búnaður sem ætlaður er dýrum vera þannig úr garði gerður að tekið sé tillit til þarfa og öryggis dýranna hvað varðar fóðrun, atferli, hreyfingu, rýmisþörf, hvíld og annan aðbúnað, svo sem loftgæði, lýsingu, hljóðvist og efnisnotkun. Einnig skal þess gætt að dýrum stafi ekki slysahætta af aðstæðum sem þeim eru búnar eða hætta skapist á því að dýrin geti orðið innikróuð eða bjargarlaus í neyð. Ráðuneytið vísar hér til þess að Matvælastofnun hafi ítrekað gert kröfur um úrbætur á aðbúnaði á bæ kærenda.

Ráðuneytið tekur undir það sjónarmið Matvælastofnunar að fyrst og fremst sé að ræða skort á nægjanlegri getu og hæfni kærenda til þess að annast dýrin í samræmi við lögin. Telur ráðuneytið að kærendur uppfylla ekki skilyrði 10. gr. laga um velferð dýra um getu, hæfni og ábyrgð en er þar kveðið á um að hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni skuli búa yfir eða afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og skal enn fremur búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið í samræmi við lögin. Matvælastofnun hefur ítrekað gert athugasemdir við eigið eftirlit kærenda á bæ þeirra og gert m.a. kröfur um verklag á þrifum, á umhverfi útihúsa, þrif á byggingu og búnaði, merkingu gripa, fóðrun gripanna, hreinleika og holdafar svo eitthvað sé nefnt.

Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kærenda að afsakanlegt sé að verða ekki við kröfum um úrbætur sökum þess að dráttavélar séu bilaðar. Það er á ábyrgð kærenda að gæta þess að útbúnaður sé til staðar svo unnt sé að annast um dýr og meðhöndla á viðunandi hátt, sbr. 14. gr. laga um velferð dýra. Sú staðreynd að kærendur höfðu ekki nauðsynlegan útbúnað á bóndabæ sínum svo hægt væri að annast og meðhöndla nautgripi þeirra telst eitt og sér brot á lögum um velferð dýra.

Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið kærenda að um of íþyngjandi aðgerð sé að ræða enda um alvarleg brot að ræða og þar sem kærendum hafi verið veittir ítrekaðir frestir til úrbóta án árangurs. Af gögnum málsins má sjá að ákvörðun og aðgerðir Matvælastofnunar sem hér koma til umfjöllunar áttu sér langan aðdraganda. Kærendum var ítrekað veittir andmælafrestir og frestur til úrbóta, í það minnsta frá 21. janúar 2021. Líkt og má sjá af gögnum málsins hefur Matvælastofnun haft afskipti af bæ kærenda í nokkurn tíma en stofnunin framkvæmdi aðra vörslusviptingu nautgripa á bæ kærenda þann 25. janúar 2017. Jafnframt sem að Matvælastofnun lagði á dagsektir þann 10. febrúar 2021, til að knýja á um úrbætur með litlum árangri.

Með vísan til þess sem rakið er hér er það mat ráðuneytisins að skilyrðum 37. gr. laganna hafi verið fullnægt þegar ákvörðun var tekin um vörslusviptingu kærenda á nautgripum sínum.

Með vísan til alls framan ritaðs staðfestir ráðuneytið ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 9. september 2021 um vörslusviptingu á nautgripum kærenda á grundvelli 37. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Ráðuneytið beinir því þó til Matvælastofnunar að kanna, áður en vörslusvipting fer fram, hvort slíkar úrbætur hafi verið gerðar að forsendur vörslusviptingar séu ekki lengur til staðar. Ráðuneytið telur að ekki þurfi að ráða frekar úr örðum málsástæðum sem tilgreindar hafa verið við meðferð málsins þar sem úrlausn þeirra hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 9. september 2021, um vörslusviptingu á nautgripum við á [B] á grundvelli 37. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, er hér með staðfest.

 

 

 

 

 

           

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum